Bændur fljúgast á í Þýskalandi og víðar

29. september, 2011

29. september hófst Þýskalandstúr sýningarinnar „Bændur flugust á“, eða „Von den Sagas – We Survived Eyjafjallajökull“ eins og hún útleggst á þýsku.

vondensagas1

29. september hófst Þýskalandstúr sýningarinnar „Bændur flugust á“, eða „Von den Sagas – We Survived Eyjafjallajökull“ eins og hún útleggst á þýsku. Frumsýningin fór fram í Literaturhaus Frankfurt og markaði upphaf hringferðar hópsins um Þýskaland, en verkið verður að auki flutt í bókmenntahúsum í Austurríki og Sviss. Sýningin verður flutt í alls ellefu skipti og endar svo þar sem hún byrjaði; í Frankfurt, á Bókasýningunni þann 13. október.

Hópurinn samanstendur af íslenskum og þýskum listamönnum úr ólíkum áttum: Íslendingunum Bergi Ebba Benediktssyni, Dóra DNA og Uglu Egilsdóttur, þýsku ungskáldunum Noru Gomringer og Finn-Ole Heinrich, tónlistarmanninum Spacemann Spiff og plötusnúðnum DJ Kermit.

Sögueyjan náði tali af Bergi Ebba daginn fyrir frumsýninguna. „Við erum mikið spennt. Við lentum fyrir skömmu í Þýskalandi og æfingarnar hafa gengið vel,“ sagði hann. „Sýningin hefur þróast dálítið frá því hún var sýnd síðast í Þýskalandi og nýtt efni hefur bæst við. Þannig að þetta er ekki alveg sama verkið og við fluttum fyrst í Þýskalandi, í Gasteig í München, síðasta vor.“

Verkefnið hófst í maí 2010, þegar hópurinn ferðaðist saman um söguslóðir á Íslandi og fræddist um sagnaarfinn. Úr ferðalaginu varð til sviðsverk, þar sem ægir saman myndbandslist, tónlist, upplestrum og ljóðaslammi. Sýningin var flutt á Listahátíð í Reykjavík og í menntaskólum um allt land á, vormánuðum þessa árs, við góðar móttökur.

Frekari upplýsingar um sýninguna má nálgast á þýskri heimasíðu verkefnisins og Facebook.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir