Auður Ava tilnefnd til franskra bókmenntaverðlauna

3. ágúst, 2012

Óútkomin frönsk þýðing skáldsögunnar Rigning í nóvember eftir Auði Övu Ólafsdóttur var nýverið tilnefnd til bókmenntaverðlaunanna Prix du Roman Fnac.

Auður Ava ÓlafsdóttirFrönsk þýðing skáldsögunnar Rigning í nóvember eftir Auði Övu Ólafsdóttur var nýverið tilnefnd til bókmenntaverðlaunanna Prix du Roman Fnac, sem franska bókabúðakeðjan Fnac veitir árlega. Franskur titill bókarinnar er L'embellie og þýðandi er Catherine Eyjólfsson.

Bókin er enn ekki komin út en verður fáanleg í frönskum bókabúðum í haust. Átta hundruð manna dómnefnd fékk kynningarútgáfu í hendurnar og valdi hana sem eina af 30 mest spennandi bókum sem koma út þar í landi í haust. Tæplega 700 titlar koma út í Frakklandi á haustmánuðum og mun tilnefningin vafalítið vekja athygli á bókinni, með tilheyrandi umfjöllun í frönskum miðlum.

Þetta er í annað skiptið sem skáldsaga eftir Auði Övu hlýtur tilnefningu til verðlaunanna, en frönsk þýðing Afleggjarans, sem kom út árið 2010, náði einnig inn á þennan eftirsótta lista tilnefndra bóka það ár. Skáldsagan hlaut gríðarmikla umfjöllun í fjölmiðlum og var kölluð „Bókmenntauppgötvun ársins“. Bókin hlaut verðlaun samtaka bókaverslana í Frakklandi sem besta evrópska skáldsagan 2010, auk fjölda tilnefninga til annarra verðlauna.

Ný skáldsaga frá Auði er væntanleg í haust hjá bókaforlaginu Bjarti.


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 2. júlí, 2025 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð frá 3. júlí til 5. ágúst.  Nánar

Karólína Rós Ólafsdóttir og Natan Jónsson hljóta Nýræktarstyrki í ár - 6. júní, 2025 Fréttir

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru veittir í átjánda sinn þann 5. júní. Styrkirnir eru 500.000 kr. og eru veittir til nýrra höfunda fyrir óbirt handrit. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir á heimssýningunni í Japan - 2. júní, 2025 Fréttir

Rán Flygenring höfundur og Shohei Akakura japanski þýðandi hennar taka þátt í bókmenntaviðburðum á heimssýningunni sem nú stendur yfir í Osaka í Japan. 

 

Nánar

Allar fréttir