Aldrei fleiri styrkir til þýðinga á erlend mál

Í ár hefur Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutað 80 styrkjum til þýðinga íslenskra verka á 28 tungumál. 

11. nóvember, 2014

Himnaríki og helvíti, LoveStar, Mánasteinn og Skaparinn meðal verka sem verða þýdd. Styrkupphæðin í ár nemur 19 milljónum króna.
Síðustu styrkjum ársins 2014 til þýðinga íslenskra verka á erlend mál hefur nú verið úthlutað frá Miðstöð íslenskra bókmennta. 
Í ár voru veittir 80 þýðingarstyrkir á 28 tungmál, en aldrei fyrr hefur fleiri styrkjum verið úthlutað til þýðinga á erlend mál. Flestir styrkir eru til þýðinga á norsku (9), þýsku (8), dönsku (7), ensku (6) og spænsku (6). Um er að ræða skáldsögur, barnabækur, ljóð og bækur almenns efnis. Styrkupphæðin í ár nemur samtals 19 milljónum króna. 

Til samanburðar má geta þess að árið 2013 nam upphæðin um 24 milljónum króna. Í fyrra voru veittir 75 styrkir til þýðinga á íslenskum verkum á 26 tungumál og er því um að ræða fjölgun umsókna og styrkja milli ára.

Meðal verka sem sótt var um styrki til þýðinga yfir á erlend mál eru skáldsagan Skaparinn eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur sem væntanleg er bæði á frönsku og indverska tungumálinu Malayalam. 

Einnig var sótt um styrki til að þýða Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson á arabísku og LoveStar eftir Andra Snæ Magnason, en hún er einnig væntanleg í franskri þýðingu. Jafnframt var sótt um styrki til að þýða verðlaunabókina Mánastein eftir Sjón á sex tungumál.

Það er ánægjulegt að sjá töluverða aukningu í ár á norrænum þýðingarstyrkjum, en að þessu sinni var úthlutað 21 styrk til þýðinga úr íslensku á norræn tungumál, en styrkir til þýðinga á norræn mál hafa frá árinu 2008 verið um 8-13 talsins á ári og er því nánast um tvöföldun að ræða í ár. Það er Norræna ráðherranefndin sem leggur til fjármagn í þýðingar á milli norrænu tungumálanna, 5.2 milljónir króna í ár. 

Miðstöð íslenskra bókmennta hóf á síðasta ári þriggja ára átaksverkefni til að auka útbreiðslu og fjölga íslenskum þýðingum á norræn tungumál og virðist sú vinna þegar vera farin að skila árangri. Liður í átakinu á næsta ári verður sérstök áhersla á íslenskar bókmenntir og höfunda undir yfirskriftinni Raddir frá Íslandi / Röster från Island á stærstu bókamessu Norðurlanda, Bókamessunni í Gautaborg í Svíþjóð.

Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir