Alþjóðlegt þýðendaþing haldið dagana 29. og 30. apríl í Veröld, húsi Vigdísar. Nítján þýðendur frá ellefu málsvæðum taka þátt í þinginu

Með þýðendaþinginu vill Miðstöð íslenskra bókmennta efla og treysta tengslin við starfandi þýðendur á erlend tungumál, sýna í verki hve mikils metin þeirra vinna er og bjóða nýja þýðendur til leiks.

29. apríl, 2019

  • Verold

Vinsældir íslenskra bókmennta eru miklar og fara vaxandi víða um heim, sem marka má meðal annars á því að þýðingar á erlend tungumál hafa nær þrefaldast á síðustu tíu árum og umsóknum um þýðingastyrki til Miðstövar íslenskra bókmennta fjölgað í samræmi við það.

Markmið Miðstöðvar íslenskra bókmennta með þýðendaþingi hér á landi er að efla og treysta tengslin við starfandi þýðendur á erlend tungumál og sýna í verki hve mikils metin þeirra vinna er, en þýðendur bókmennta á erlend mál eru öflugir sendiherrar bókmenntanna og auka hróður þeirra um allan heim. 

Aðstandendur þingsins vilja jafnframt hvetja nýja og upprennandi þýðendur til dáða og auðvelda öllum þátttakendum að komast í snertingu við íslenskan bókaheim og menningu á líðandi stund.

19 þýðendum, sem þýða úr íslensku á 11 mismunandi tungumál, hefur verið boðin þátttaka í þinginu. Um helmingur hópsins er búsettur hér á landi og helmingur kemur að utan. Tungumál þátttakenda eru: pólska, tékkneska, norska, sænska, danska, enska, rússneska, lettneska, eistneska, ítalska og spænska. 

Dagskrá þingsins verður fjölbreytt, í formi fyrirlestra og vinnustofa sem fram fara í Veröld - húsi Vigdísar og móttökum, vettvangsheimsóknum, fundum með höfundum, sérfræðingum, útgefendum og fleiru. 

Þingið er haldið í beinu framhaldi af Bókmenntahátíð í Reykjavík 2019. Á hátíðinni verður m.a. fjallað um pólskar bókmenntir á dagskrá sem fer fram í Menningarhúsinu Gerðubergi í samstarfi við Borgarbókasafnið. Þar flytur Jacek Godek þýðandi erindi um íslenskar bókmenntir í pólskum þýðingum, en Jacek verður meðal þátttakenda í þýðendaþinginu. 

Föstudaginn 26. apríl afhendir forseti Íslands Orðstír, heiðursviðurkenningu þýðenda af íslensku á erlend mál, og er það í 3. sinn sem hann er veittur, en það er gert í tengslum við Bókmenntahátíð annað hvert ár. Þar fá tveir þýðendur viðurkenningu fyrir ötult starf.

Að Orðstír standa Miðstöð íslenskra bókmennta, embætti forseta Íslands, Íslandsstofa, Bandalag þýðenda og túlka, og  Bókmenntahátíð í Reykjavík. Dagskrá með Orðstírshöfunum í ár verður í Veröld, húsi Vigdísar, sunnudaginn 28. apríl og verður sú dagskrá brú yfir í þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem hefst eins og fyrr segir mánudaginn 29. apríl.

Þetta er í þriðja skipti sem þýðendaþing er haldið hér á landi fyrir þýðendur íslenskra bókmennta á ýmis erlend mál samtímis, fyrsta þingið var haldið árið 2009 í aðdraganda heiðursþátttöku Íslands á bókasýningunni í Frankfurt, annað þing var haldið haustið 2017 og einnig hafa áður verið haldin norræn þýðendaþing.

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur veg og vanda af undirbúningi og skipulagi þingsins. Styrktar- og samstarfsaðilar eru Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, Árnastofnun, Félag íslenskra bókaútgefenda, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Rithöfundasamband Íslands, Bandalag þýðenda og túlka og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

 


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir