Nýræktarstyrki 2018 hljóta Benný Sif Ísleifsdóttir fyrir skáldsöguna Gríma og Þorvaldur S. Helgason fyrir ljóðabókina Gangverk

Menntamálaráðherra afhenti Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta í Gunnarshúsi

30. maí, 2018

Miðvikudaginn 30. maí, veitti Miðstöð íslenskra bókmennta tveimur nýjum höfundum Nýræktarstyrki til að styðja við útgáfu á verkum þeirra, en hvor styrkur nemur 400.000 kr. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins.

Þetta er í ellefta sinn sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa rúmlega fimmtíu höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi. Meðal höfunda og verka sem hlotið hafa Nýræktarstyrki á liðnum árum eru Fríða Ísberg fyrir Slitförina, Kristín Ragna Gunnarsdóttir fyrir Úlf og Eddu, Arngunnur Árnadóttir fyrir Að heiman, Halldór Armand Ásgeirsson fyrirVince Vaughn í skýjunum og Sverrir Norland fyrir bókina Kvíðasnillingarnir, svo einhverjir séu nefndir.

Nýræktarstyrkir eru veittir árlega til útgáfu á skáldverkum höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum og hvetja þá með því til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira.

Í ár bárust 58 umsóknir um Nýræktarstyrki og er það metumsóknarfjöldi á þeim ellefu árum sem styrkirnir hafa verið veittir. Verkin sem sótt var um fyrir eru af ýmsum toga s.s. skáldsögur, leikrit, ljóð, barna- og ungmennabækur, ævisögur, smásögur og glæpasögur og eru höfundarnir á öllum aldri. Eins og fyrr segir hlutu styrkina í ár skáldsaga og ljóðabók. Að vali styrkhafa standa bókmenntaráðgjafar Miðstöðvar íslenskra bókmennta, sem í ár eru Magnús Guðmundsson og Þórdís Edda Jóhannesdóttir. 

Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2018 hljóta eftirtalin verk og höfundar

Benny-sif-umsagnirGríma

Skáldsaga

Höfundur: Benný Sif Ísleifsdóttir

Benný Sif Ísleifsdóttir (f. 1970) er með MA gráðu í þjóðfræði frá Háskóla Íslands auk diplómanáms í Youth and Community Studies frá Saint Martin´s College og próf í hagnýtri íslensku. Gríma er hennar fyrsta skáldsaga.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

Gríma er söguleg skáldsaga sem segir frá örlögum kvenna í íslensku sjávarþorpi um og eftir miðja tuttugustu öld. Sagan er grípandi, persónusköpun sterk og bygging verksins vel úthugsuð. Textinn er lifandi og skemmtilegur en um leið lýsir höfundur harmrænum atburðum af einstakri næmni. Frásagnargleði og væntumþykja fyrir viðfangsefninu einkenna þessa hrífandi skáldsögu.”

 

Thorvaldur-umsognGangverk

Ljóðabók

Höfundur: Þorvaldur Sigurbjörn Helgason

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason (f. 1991) stundar MA nám í ritlist við Háskóla Íslands og er með BA próf frá Sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands. Gangverk er meistaraverkefni hans í ritlistinni, undir leiðsögn Hauks Ingvarssonar, sem byggir á reynslu höfundar á því að lifa með bjargráð eftir að hafa farið í hjartastopp árið 2007.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

„Gangverk er heillandi ljóðabók eftir ungt skáld með merkilega lífsreynslu að baki. Ljóðin eru ólík að formi og unnin með mismunandi aðferðum en eiga það öll sameiginlegt að vera einlæg og takast á við persónulega reynslu en vísa einnig út í hið almenna. Leiðarstefið er tungumál hjartans, á forsendum bæði læknavísindanna og ástarinnar, með þeim hætti að það veitir einstaka innsýn í líf og líðan ljóðmælanda.”

Yfirlit yfir fjölda umsókna og veittra styrkja á árunum 2008-2018

Umsóknum um Nýræktarstyrki hefur fjölgað verulega frá því þeim var fyrst úthlutað árið 2008 hjá Bókmenntasjóði, forvera Miðstöðvar íslenskra bókmennta, en þá bárust 9 umsóknir og 5 styrkir voru veittir, hver að upphæð 200.000 kr.

Árið 2009 bárust 27 umsóknir og 6 hlutu styrki, árið 2010 bárust 39 umsóknir og voru 5 styrkir veittir og árið 2011 bárust 30 umsóknir og þá var úthlutað 5 styrkjum. Árið 2012 bárust 23 umsóknir og voru 5 styrkir veittir, 2013 fjölgaði umsóknum töluvert en þá bárust 49 og 4 verk hlutu styrk að upphæð 200.000 kr.

Árið 2014 barst 31 umsókn um Nýræktarstyrkina og hlutu 4 styrk að upphæð 250.000 kr. Árið 2015 voru umsóknirnar 51, 5 hlutu styrk og var styrkupphæðin hækkuð í 400.000 kr. Árið 2016 bárust 35 umsóknir og 3 hlutu styrk, 2017 bárust svo 57 umsóknir og 2 hlutu styrk og í ár voru umsóknirnar 58, sem er metfjöldi, og 2 hlutu styrk. Allar upplýsingar um Nýræktarstyrki og úthlutanir fyrri ára má finna hér.

Fullsizerender_1527776329759

Img_3068


Img_3070


Skjolin
 Benny-sif-upplestur  Img_3038  Img_2984  Img_3063
 Img_3080  Img_3082  Img_3085  Img_2983_1527776335819
 Img_3084  Img_3046  Hopmynd-3  Thorunn-kristjan-hrefna-og-thordis_1527776730692

Allar fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir útgáfustyrki til nýrra íslenskra ritverka - 3. maí, 2024 Fréttir

Í ár var úthlutað tæplega 21 milljón króna í útgáfustyrki til 41 verks. Alls bárust 66 umsóknir og sótt var um heildarupphæð rúmlega 74 milljónir króna.

Nánar

Úthlutun úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði; 25 spennandi verk hljóta styrki - 6. maí, 2024 Fréttir

8 milljónum var veitt úr sjóðnum til 25 barna- og ungmennaverka sem koma út á næstunni.

Nánar

Úthlutun til þýðinga á íslensku; 27 styrkir veittir í fyrri úthlutun ársins - 3. maí, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins 2024 bárust 37 umsóknir til þýðinga á íslensku. Veittir voru 27 styrkir að upphæð 8,8 millj. kr. Seinni úthlutun ársins fer fram í nóvember. 

Nánar

Allar fréttir