Handhafar Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár!

27. janúar, 2021

Elísabet Kristín Jökulsdóttir hlaut verðlaunin fyrir skáldsöguna Aprílsólarkulda, Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir fyrir Blokkina á heimsenda og Sumarliði R. Ísleifsson fær verðlaunin fyrir Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár.


Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 26. janúar sl. og var sjónvarpað beint frá verðlaunaafhendingunni á RÚV. 

Elísabet Kristín Jökulsdóttir hlaut verðlaunin í flokki skáldverka fyrir skáldsöguna Aprílsólarkuldi, Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir hlutu verðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bókina Blokkin á heimsenda og Sumarliði R. Ísleifsson í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár.

Elisabet-Jokulsdottir-2020Skaldverk-3-AprilsolarkuldiSkáldverk

Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur. Útgefandi: JPV útgáfa.

Umsögn lokadómnefndar:

Í fjórðu skáldsögu Elísabetar Jökulsdóttur, Aprílsólarkulda, er fjallað á tilfinningaríkan og ljóðrænan hátt um föðurmissi, ást, sorg og geðheilbrigði. Þar segir Elísabet afar persónulega sögu byggða á brotum úr eigin ævi. Höfundur hefur gott vald á skáldsagnaforminu og nýtir það til hins ýtrasta. Þar fær ríkt myndmál og næmni sem einkennt hefur ljóðagerð Elísabetar að njóta sín vel og blæbrigðaríkur textinn leiðir lesandann óvænta en hrífandi leið í gegnum átakanlega sögu. Skáldævisaga Elísabetar er sérlega athyglisverð viðbót í þeirri tiltölulega nýskilgreindu bókmenntategund.

Fraedi-5-Sumarlidi-R-Isleifsson

Fraedi-5-I-fjarska-nordursins

Fræðibækur og rit almenns efnis

Í fjarska norðursins : Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár eftir Sumarliða R. Ísleifsson. Útgefandi: Sögufélag.

Umsögn lokadómnefndar:

Löndin í norðri, Ísland og Grænland, voru öldum saman sveipuð dularfullum og framandi bjarma í augum þeirra ferðalanga sem þangað lögðu leið sína. Í ritinu Í fjarska norðursins – Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár tekst Sumarliða R. Ísleifssyni að varpa ljósi á rúmlega þúsund ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja á afar aðgengilegan og skýran hátt. Athyglisvert og fróðlegt er að bera saman frásagnir, skoðanir og ályktanir þeirra mörgu fræðimanna, rithöfunda og landkönnuða sem koma við sögu og sjá hvaða breytingar verða á ímynd þessara fjarlægu eyja í tímans rás. Bókin er glæsilegt og eigulegt rit, fallega hönnuð og með ríkulegu myndefni.

Barna-1-ArndisBarna-1-HuldaBarna-1-Blokkin-a-heimsendaBarna- og ungmennabækur

Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Útgefandi: Mál og menning.

Umsögn lokadómnefndar:

Blokkin á heimsenda er afar athyglisverð bók þar sem unnið er skemmtilega úr mjög frumlegri hugmynd. Frásögnin er áreynslulaus og á köflum bráðfyndin þótt mikilvægi samheldni og vináttu séu meginstef. Sagan er í vissum skilningi ævintýraleg og sýna höfundar mikla hugmyndaauðgi, en þó eru aðstæðurnar ekki óhugsandi og persónurnar eru bæði aðgengilegar og breyskar. Deilt er með sterkum hætti á neysluhyggju Vesturlanda og loftslagsváin er alltumlykjandi, án þess þó að þeim boðskap sé þröngvað upp á lesendur. Frásagnargleðin skín í gegn og sagan hefur burði til að heilla lesendur á öllum aldri.

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verðlaunaverkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu Einar Örn Stefánsson, Hrund Þórsdóttir, Jóhannes Ólafsson og Ingunn Ásdísardóttir, sem var jafnframt var formaður nefndarinnar.

Hér má sjá frétt um allar tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, sem tilkynnt var um 2. desember 2020.

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Auk þess er verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir, hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens; opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.

Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót árið 1989 í tilefni af 100 ára afmæli Félags íslenskra bókaútgefenda sem stofnað var í Reykjavík í janúar 1889. Fyrsta árið var verðlaununum ekki skipt í flokka en tilnefndar alls 10 bækur. Fyrsti verðlaunahafinn var ljóðskáldið Stefán Hörður Grímsson sem hlaut verðlaunin fyrir bókina Yfir heiðan morgun. Árið eftir var tilhögun verðlaunanna breytt þannig að tilnefndar bækur skiptust í tvo flokka, fagurbækur annars vegar og fræðibækur og rit almenns efnis hins vegar. Þannig hafa verðlaunin haldist óbreytt þar til ársins 2013 að við bætist flokkur barna- og ungmennabóka. Árið 2020 var flokki fagurbóka eða fagurbókmennta eins og einnig var notað, breytt í flokk skáldverka.

Þeir höfundar sem áður hafa hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin:

1989 Stefán Hörður Grímsson

1990 Fríða Á. Sigurðardóttir og Hörður Ágústsson

1991 Guðbergur Bergsson og Guðjón Friðriksson

1992 Þorsteinn frá Hamri og Vésteinn Ólason, Guðrún Nordal, Sverrir Tómasson

1993 Hannes Pétursson og Jón G. Friðjónsson

1994 Vigdís Grímsdóttir og Silja Aðalsteinsdóttir

1995 Steinunn Sigurðardóttir og Þór Whitehead

1996 Böðvar Guðmundsson og Þorsteinn Gylfason

1997 Guðbergur Bergsson og Guðjón Friðriksson

1998 Hörður Ágústsson og Thor Vilhjálmsson

1999 Andri Snær Magnason og Páll Valsson

2000 Gyrðir Elíasson og Guðmundur Páll Ólafsson

2001 Hallgrímur Helgason og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir

2002 Ingibjörg Haraldsdóttir og Pétur M. Jónasson, Páll Hersteinsson,

2003 Ólafur Gunnarsson og Guðjón Friðriksson

2004 Auður Jónsdóttir og Halldór Guðmundsson

2005 Jón Kalman Stefánsson og Kristín G. Guðnadóttir, Gylfi Gíslason, Arthur C. Danto, Matthías Jóhannessen, Silja Aðalsteinsdóttir og Eiríkur Þorláksson

2006 Ólafur Jóhann Ólafsson og Andri Snær Magnason

2007 Sigurður Pálsson og Þorsteinn Þorsteinsson

2008 Einar Kárason og Þorvaldur Kristinsson

2009 Guðmundur Óskarsson og Helgi Björnsson

2010 Gerður Kristný og Helgi Hallgrímsson

2011 Guðrún Eva Mínervudóttir og Páll Björnsson

2012 Eiríkur Örn Norðdahl og Gunnar F. Guðmundsson

2013 Guðbjörg Kristjánsdóttir, Andri Snær Magnason og Sjón

2014 Snorri Baldursson, Bryndís Björgvinsdóttir og Ófeigur Sigurðsson

2015 Gunnar Þór Bjarnason, Gunnar Helgason og Einar Már Guðmundsson

2016 Ragnar Axelsson, Hildur Knútsdóttir og Auður Ava Ólafsdóttir

2017 Unnur Þóra Jökulsdóttir, Áslaug Jónsdóttir, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler og
Kristín Eiríksdóttir.

2018 Hörður Kristinsson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Jón Baldur Hlíðberg, Sigrún Eldjárn og Hallgrímur Helgason.

2019 Jón Viðar Jónsson, Bergrún Íris Sævarsdóttir og Sölvi Björn Sigurðsson.

2020 Sumarliði R. Ísleifsson, Arndís Þórarinsdóttir, Hulda Sigrún Bjarnadóttir og Elísabet Kristín Jökulsdóttir

Samtals hafa frá upphafi 84 rithöfundar hlotið verðlaunin.


Allar fréttir

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efnir til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir taka flugið! - 21. mars, 2025 Fréttir

Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.

Nánar

52 styrkir veittir til þýðinga íslenskra bóka á erlend mál í fyrri úthlutun ársins - 18. mars, 2025 Fréttir

Meðal verka sem nú rata til nýrra lesenda eru Meðan glerið sefur eftir Gyrði Elíasson, DJ Bambi eftir Auði Övu Ólafsdóttur, Vigdís: Bókin um fyrsta konuforsetann eftir Rán Flygenring og Sextíu kíló af sunnudögum eftir Hallgrím Helgason.

Nánar

Allar fréttir