Yfir 50 íslenskar bækur gefnar út á þýsku þessi misserin

2. september, 2020 Fréttir

Höfundar frá Íslandi eru alla jafna tíðir gestir á bókmenntaviðburðum víða um Þýskaland. Yfir 50 bækur hafa verið þýddar úr íslensku á þýsku og komið út, eða eru væntanlegar, í Þýskalandi, Austurríki og Sviss á liðnum þremur árum.

Eitt af hlutverkum Miðstöðvar íslenskra bókmennta er að kynna íslenskar bókmenntir erlendis og auka útbreiðslu þeirra. Það starf hefur borið góðan árangur eins og meðal annars má sjá á miklum áhuga á íslenskum bókmenntum um heim allan, þar á meðal í Þýskalandi. 

Heiðursþátttaka Íslands á bókamessunni í Frankfurt 2011 vakti óskipta athygli og hefur haft mikið að segja um vinsældir og útbreiðslu íslenskra bókmennta í þýskumælandi löndum og víðar. Unnið var markvisst að kynningu íslenskra bókmennta í tengslum við heiðursþátttökuna og í aðdraganda heiðursársins fjölgaði þýðingum verulega og hefur útgáfa á íslenskum verkum á þýsku verið blómleg síðan.

Þýðingar á þýsku

Mikið er þýtt úr íslensku á þýsku þessi misserin en bækurnar eru orðnar um fimmtíu talsins á þriggja ára tímabili og þar gegna þýðingastyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta mikilvægu hlutverki.

Hér neðar má sjá lista yfir þýðingar sem eru nýlega komnar út, eða eru væntanlegar, í Þýskalandi, Austurríki og Sviss og þar kennir margra grasa; skáldverk, glæpasögur, barna- og ungmennabækur, ljóð og bækur almenns efnis. Það má því með sanni segja að mikil gróska sé í útgáfu íslenskra bóka í Þýskalandi. 

Þýðendur eru lykilfólk

Vinsældum íslenskra bóka í Þýskalandi ber ekki síst að þakka þeim ötulu þýðendum sem bera hróður þeirra út fyrir landsteinana og kynna fyrir áhugasömum útgefendum og lesendum í heimalandinu. Á þýðendasíðu Miðstöðvarinnar má sjá helstu þýðendur íslenskra bókmennta á þýsku, upplýsingar um þá og þýðingar þeirra.

Hér má svo lesa skemmtilegt viðtal við þýðandann Tinu Flecken, meðal annars um það hvernig áhugi hennar á íslenskunni og íslenskum bókmenntum kviknaði.

Bókmenntaviðburðir víða um Þýskaland

Fjöldi höfunda frá Íslandi á dyggan lesendahóp í Þýskalandi. Þeir koma reglulega fram á bókmenntahátíðum og öðrum viðburðum þar í landi - iðulega með aðkomu Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

Ber þar helst að nefna bókmenntahátíðina í Leipzig en þangað er íslenskum höfundum boðin þátttaka á hverju ári. Einnig hafa þeir verið tíðir gestir á ilb (International Literature Festival Berlin) og höfundar frá Íslandi koma gjarnan fram á Stuttgarter Buchwochen og Karlsruher Bücherschau, norrænum bókmenntadögum í Literaturhaus í Hamborg og reglulega eru viðburðir og upplestrar í íslenska sendiráðinu í Berlín, svo fátt eitt sé nefnt. 

Á döfinni í Berlín og Bremerhaven

Andri Snær Magnason verður gestur hátíðarinnar ilb (International Literature Festival Berlin) sem hefst í næstu viku og tekur þar þátt í dagskrá 11. september sem ber heitið VISIONS OF BIOECONOMY. Einnig verður hægt að fylgjast með viðburðinum í streymi á vef hátíðarinnar. Íslensk-palenstíski rithöfundurinn Mazen Maarouf er líka gestur hátíðarinnar í ár og verður hann í spjalli um bókina sína, Brandarar handa byssumönnum, þann 17. september.  

Í Bremerhaven opnar í október sýningin „Hafið – Reflections of the Sea“ sem var í Felleshus, menningarmiðstöð norrænu sendiráðanna í Berlín, fyrr á árinu. Meðal þeirra sem eiga verk á sýningunni eru rithöfundarnir Andri Snær Magnason, Auður Jónsdóttir, Hallgrímur Helgason, Jón Kalman Stefánsson, Linda Vilhjálmsdóttir, Ragnar Helgi Ólafsson, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Sjón og Steinunn Sigurðardóttir og sýningastjóri er Eva Þengilsdóttir.

Þessa dagana er lítið um ferðalög sökum ástandsins í heiminum, en vonandi verður breyting þar á fljótlega svo höfundar geti farið að kynna bækur sínar og hitta erlenda lesendur sína á ný. Á meðan má lesa bækur margra þeirra í þýskri þýðingu!

Nokkur dæmi um nýlegar og væntanlegar þýskar þýðingar:

Skáldsögur

 • Ósjálfrátt (þýð. Kristof Magnusson) & Stjóri skjálfti (þýð. Tina Flecken). Höfundur Auður Jónsdóttir, útgefandi: BTB/Randon House.
 • Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur í þýðingu Tinu Flecken. Útgefandi er Insel Verlag.
 • Lifandilífslækur & Landslag er aldrei asnalegt eftir Bergsvein Birgisson, í þýðingu Elenore Gudmundsson. Útgefandi er Residenz Verlag.  
 • Stormfuglar og Óvinafagnaður eftir Einar Kárason í þýðingu Kristof  Magnusson og útgáfu Btb/Random House.
 • Hundadagar eftir Einar Má Guðmundsson í þýðingu Betty Wahl. Útgefandi: BTB/Randon House.
 • Skegg Raspútíns eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, þýðandi er Anika Wolff og útgefandi Btb/Random House.
 • Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason í þýðingu Karl-Ludwig Wetzig. Útgefandi er Klett Cotta.
 • Svartalogn eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, þýðandi Tina Flecken. Útgefandi er Krüger Verlag.
 • Vonarlandið eftir Kristínu Steinsdóttur, þýðandi Anika Wolff, útgefandi C.H. Beck.
 • Syndafallið & Bréf til mömmu eftir Mikael Torfason, þýðandi er Tina Flecken og útgefandi Stroux edition.
 • Pater Jón Sveinsson - Nonni eftir Gunnar F. Guðmundsson, þýðandi Gert Kreutzer. Útgefandi: Universitäts- und Stadtbibliothek Köln.
 • Handbók um minni og gleymsku eftir Ragnar Helga Ólafsson. Þýðendur eru Wolfgang Schiffer & Jón Thor Gíslason og útgefandi er Elif verlag.
 • Saga Ástu eftir Jón Kalman Stefánsson í þýðingu Karl-Ludwig Wetzig, útgefandi er Piper Verlag.
 • Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, þýðandi er Tina Flecken og útgefandi Suhrkamp.
 • CoDex 1962 / Rökkurbýsnir / Skugga-Baldur eftir Sjón, í þýðingu Betty Wahl. Útgefandi er S. Fischer Verlag.
 • Fornaldarsögur Norðurlanda í þýðingu Prof. Dr. Rudolf Simek ofl., útgefandi er Verlag GmbH & Co. KG.
 • Nautið & Svartigaldur eftir Stefán Mána, þýðandi er Karl-Ludwig Wetzig og útgefandi er Amazon Crossing.

Fræðibækur og bækur almenns efnis

 • Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason í þýðingu Tinu Flecken. Útgefandi er Suhrkamp.
 • Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk eftir Unni Jökulsdóttur. Þýðandi Tina Flecken og útgefandi Insel Verlag.
 • Heiða – fjalldalabóndinn eftir Steinunni Sigurðardóttur í þýðingu Tinu Flecken og útgáfu Hanser Verlag.

Glæpasögur

 • Myrkrið veit / Petsamo / Þýska húsið / Stúlkan hjá brúnni eftir Arnald Indriðason í þýðingu Anniku Wolff. Útgefandi er Bastei Lübbe.
 • Gildran / Netið / Búrið eftir Lilju Sigurðardóttur, þýðendur eru Tina Flecken og Anika Wolff og útgefandi DuMont Buchverlag GmbH & Co. KG.
 • Dimma / Drungi / Mistur / Andköf eftir Ragnar Jónasson. Útgefandi er Btb/Random House.
 • Gatið / Brúðan / Aska / Auðnin / Sér grefur gröf / Þriðja táknið eftir Yrsu Sigurðardóttur. Þýðandi er Tina Flecken og útgefandi Btb/Random House. 

Ljóð

 • Leðurjakkaveður eftir Fríðu Ísberg. Útgefandi er Elif Verlag.
 • frelsi / smáa letrið eftir Lindu Vilhjálmsdóttur. Þýðendur eru Jón Thor Gíslason & Wolfgang Schiffer og útgefandi Elif Verlag.
 • Ljóð muna rödd eftir Sigurð Pálsson. Þýðendur: Jón Thor Gíslason & Wolfgang Schiffer. Útgefandi: Elif Verlag.
 • Bewegliche Berge eftir Sjón, þýðandi Tina Flecken og Betty Wahl, útgefandi Edition Rugerup.

 • Hugástir eftir Steinunni Sigurðardóttur. Þýðandi er Klaus Jurgen Liedtke og útgefandi er Kleinheinrich.
 • Ljóðasafn, valin ljóð úr bókum Hjartar Pálssonar, þýðandi er Gert Kreutzer sem einnig valdi ljóðin. Útgefandi: United p.c.

Barna- og ungmennabækur

 • Nikky og slóð hvítu fjaðranna eftir Brynju Sif Skúladóttur. Þýðandi er Ursula Giger og útgefandi Verlag Richard Gautschi.

Allar fréttir

Nýræktarstyrkina í ár hljóta Ingólfur Eiríksson, Jakub Stachowiak, Mao Alheimsdóttir og Nína Hjördís Þorkelsdóttir - 3. júní, 2021 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur úthlutað fjórum Nýræktarstyrkjum til nýrra höfunda og nemur hver styrkur 500 þúsund krónum. 94 umsóknir bárust í ár, sem er metfjöldi umsókna frá upphafi.

Nánar

Framhaldsskólar um land allt vilja ólmir fá rithöfunda í heimsókn! - 4. júní, 2021 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta áætlar um 70 höfundaheimsóknir í 14 framhaldsskóla á árinu.

Nánar

Sumarlokun skrifstofu - 1. júlí, 2021 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð vegna sumarleyfa frá 5. júlí til 3. ágúst.

Nánar

Allar fréttir