Alþjóðlegar bókmenntahátíðir og viðburðir á döfinni í raun- og rafheimum með þátttöku íslenskra höfunda

10. september, 2020

Vegna ástandsins í heiminum hefur fjölda bókamessa, bókmenntaviðburða, upplestra og útgáfuhófa um allan heim verið frestað eða fellt niður. Þó verða allmargir viðburðir haldnir í raunheimum á næstunni á meðan aðrir fara fram með rafrænum hætti.

  • 55589243_2198734507107375_2648327738665992192_o

Vegna ástandsins í heiminum hefur fjölda bókamessa, bókmenntaviðburða, upplestra og útgáfuhófa um allan heim verið frestað eða fellt niður. Þó verða allmargir viðburðir haldnir í raunheimum á næstunni á meðan aðrir fara fram með rafrænum hætti með þátttöku íslenskra höfunda. Hér eru dæmi um nokkra slíka viðburði:

Á döfinni í september

Dagana 8.-13. september verður bókmenntahátíðin Vilenica International Literary Festival haldin í 35. sinn í Slóveníu. Höfundarnir Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Kristín Ómarsdóttir og Ragnar Helgi Ólafsson taka þátt með rafrænum hætti 11.-13. september, lesa upp úr verkum sínum og taka þátt í spjalli um íslenskar bókmenntir sem Sverrir Norland stýrir. Í tengslum við hátíðina gefur Rithöfundasamband Slóveníu út ritið Raddir í loftinu. Anthology of Contemporary Icelandic Literature en þar má finna texta eftir rúmlega 20 íslenska höfunda og má lesa nánar um það hér.

Andri Snær Magnason verður gestur hátíðarinnar ilb (International Literature Festival Berlin) í Berlín, Þýskalandi, sem stendur yfir 9.-19. september og tekur þátt í dagskrá þann 11. september sem ber heitið VISIONS OF BIOECONOMY. Einnig verður hægt að fylgjast með viðburðinum í streymi á vef hátíðarinnar. Íslensk-palenstíski rithöfundurinn Mazen Maarouf er líka gestur hátíðarinnar í ár og verður hann í spjalli um bókina sína, Brandarar handa byssumönnum, þann 17. september.  

Norræna bókmenntahátíðin NORD verður haldin dagana 18. og 19. september í Helsingør í Danmörku. Á dagskránni eru samtöl við höfunda frá öllum Norðurlöndunum, viðtöl, upplestrar og aðrar uppákomur. Gestir frá Íslandi verða Bergsveinn Birgisson og Fríða Ísberg en þau eru tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs sem verða afhent á rafrænum viðburði þann 27. október og verður hann sýndur á RÚV.

Scandinavia House í New York er miðstöð norrænnar menningar í Bandaríkjunum þar sem eru haldnir bókmenntaviðburðir reglulega og er m.a. norrænn bókaklúbbur starfræktur þar. Þann 22. september mætir Auður Ava Ólafsdóttir rafrænt í bókaklúbbinn og les upp úr bók sinni Ungfrú Ísland, eða Miss Iceland í þýðingu Brian FitzGibbon, og ræðir við lesendur sína. 

Transpoesie er belgísk ljóðahátíð sem hefst þann 23. september og tekur Sigurbjörg Þrastardóttir þátt í opnunarviðburðinum ásamt 5 kvenskáldum frá ýmsum löndum. Viðburðinum verður streymt.

Fimmtudaginn 24. september verður rafrænn bókmenntaviðburður þar sem höfundarnir Þóra Hjörleifsdóttir og Kristín Eiríksdóttir ræða um bækur sínar sem komnar eru út í enskum þýðingum. Eliza Reid, forsetafrú, stýrir umræðunum og verður auk þess með stutta kynningu um íslenskar bókmenntir. Sendiráðin í Washington, London og Ottawa ásamt aðalræðisskrifstofunni í New York standa fyrir viðburðinum.

Undir lok mánaðarins fer alþjóðlega bókmenntahátíðin í Odessa fram í Úkraínu. Emil Hjörvar Petersen verður gestur hátíðarinnar og les upp ljóð úr bókinni Refur rafleiðis á viðburði 25. september kl. 17 að íslenskum tíma. 

Á döfinni í október

Einar Már Guðmundsson og Gerður Kristný koma fram í NordOrd í Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn 1. október og ræða um bókmenntir, árita bækur og svara spurningum úr sal. Laugardaginn 3. október mun Gerður Kristný einnig taka þar þátt í dagskrá sem ber yfirskriftina Ljóðlist án landamæra 2020 ásamt ljóðskáldum frá ýmsum löndum.

Í byrjun október stendur American-Scandinavian Foundation fyrir rafrænu pallborði þar sem skáldin Þórdís Helgadóttir, Þóra Hjörleifsdóttir, Sunna Dís Másdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Melkorka Ólafsdóttir og Fríða Ísberg ræða um nýjar þýðingar á ljóðasafni sínu við þýðandann Larissu Kyzer. Er þetta hluti af Writers You Should Know sem er rafræn dagskrá um norrænar samtímabókmenntir með upplestrum höfunda og spjalli við áhorfendur.

Í Bremerhaven opnar í október sýningin „Hafið – Reflections of the Sea“ sem var í Felleshus, menningarmiðstöð norrænu sendiráðanna í Berlín, fyrr á árinu. Meðal þeirra sem eiga verk á sýningunni eru rithöfundarnir Andri Snær Magnason, Auður Jónsdóttir, Hallgrímur Helgason, Jón Kalman Stefánsson, Linda Vilhjálmsdóttir, Ragnar Helgi Ólafsson, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Sjón og Steinunn Sigurðardóttir. Sýningarstjóri er Eva Þengilsdóttir.

Hallgrímur Helgason gerði víðreist í Þýskalandi og Sviss í seinni hluta október og hitti þýðendur sína, lesendur og aðra í Berlín, Kiel, Hamburg, Zürich og Munchen í tilefni þess að skáldasaga hans, Sextíu kíló af sólskini, er væntanleg í þýskri þýðingu. 

Á döfinni í nóvember

Gyrðir Elíasson verður gestur á Christianshavns Bogfestival 2020 sem haldin verður 13. og 14. nóvember í Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn.

Bókmennta- og menningarhátíðin Les Boréales fer fram í borginni Caen í Frakklandi í nóvember ár hvert en hún hefur frá upphafi beint sjónum að bókmenntum og menningu Norður- og Eystrarsaltslanda. Þrír íslenskir höfundar verða gestir hátíðarinnar í ár sem verður 19.-29. nóvember; þau Bergsveinn Birgisson, Jón Kalman Stefánsson og Sigríður Hagalín Björnsdóttir. 

Stórar bókamessur blásnar af eða í breyttri mynd

Ef allt væri með felldu væri þátttaka íslenskra höfunda og útgefenda í stóru og rótgrónu bókamessunum í Gautaborg og Frankfurt handan við hornið en þar hafa höfundar komið fram og útgefendur og aðrir bókaunnendur frá öllum heimshornum hist til að kynna sér það nýjasta í bókmenntaheiminum.  Ákveðið var fyrir nokkru að stóru messurnar í Gautaborg og Frankfurt yrðu haldnar með gerbreyttu sniði í ár. Þá var bókamessunni í London aflýst með stuttum fyrirvara í mars.

Rafrænar messur í Gautaborg og Frankfurt

Í fyrsta sinn frá upphafi verður Gautaborgarmessan rafræn en hún verður haldin 24.-27. september. Þar verður fjöldi spennandi dagskrárliða sem sjá má hér en því miður er ekki unnt að bjóða gestum utan til Svíþjóðar á hátíðina eins og til stóð og verður því ekki af þátttöku Andra Snæs Magnasonar, Kristínar Eiríksdóttur og Bergs Ebba að þessu sinni. 

Sama má segja um eina stærstu alþjóðlegu bókamessu heims í Frankfurt, Þýskalandi, sem verður haldin í október og er einnig rafræn í ár. Miðstöð íslenskra bókmennta tekur ekki þátt í messunum líkt og undanfarið og engir Íslandsbásar verða þar í ár.

Dregið úr áhrifum heimsfaraldurs

Miðstöðin beitir öðrum ráðum til kynningar íslenskra bókmennta og höfunda erlendis á meðan ástandið varir, svo sem veitir styrki til þátttöku í rafrænum viðburðum í stað ferða á viðburði erlendis og stendur fyrir átaki í þýðingum á erlend mál. Einnig er unnið að gerð myndbanda um íslenska höfunda og bókmenntir og í bígerð er sérstakur höfundavefur sem kynntur verður betur innan skamms og fleira sem nýtist vel í kynningu á íslenskum höfundum og verkum erlendis.


Allar fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir 37 útgáfustyrki til nýrra íslenskra ritverka - 13. maí, 2025 Fréttir

Í ár var úthlutað rúmum 18 milljónum króna í útgáfustyrki til 37 verka. Alls bárust 96 umsóknir og sótt var um heildarupphæð 99,8 milljónir króna.

Nánar

Úthlutað úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði; 25 fjölbreytt verk fyrir yngri lesendur hljóta styrki - 13. maí, 2025 Fréttir

Með styrkjunum er markmiðið að efla útgáfu vandaðra bóka á íslensku fyrir yngri lesendur, myndríkar bækur sem og textabækur, fræðibækur, skáldverk og allt þar á milli. 

Nánar

19 styrkir veittir til þýðinga á íslensku í fyrri úthlutun ársins; verðlaunaverk, sígild og ný skáldverk - 13. maí, 2025 Fréttir

Styrkir til þýðinga á íslensku eru veittir til að þýða mikilvæg verk úr samtímanum, erlendar fagurbókmenntir og fræðirit. Einnig eru veittir styrkir til þýddra vandaðra, myndríkra bóka fyrir börn og ungmenni.

Nánar

Allar fréttir