Öllum ráðum beitt til að draga úr áhrifum heimsfaraldurs á íslenska bókmenningu

1. september, 2020 Fréttir

Þar má nefna aukaúthlutun í maí, styrki til þátttöku í rafrænum viðburðum í stað ferða á viðburði erlendis, átak í þýðingum á erlend mál og samstarf Miðstöðvar íslenskra bókmennta við fjölda aðila og stofnana um kynningu íslenskra bókmennta og höfunda.

  • Baekur-i-hillu

Til að draga úr áhrifum heimsfaraldursins á íslenska bókmenningu; rithöfunda, útgefendur og þýðendur hefur Miðstöð íslenskra bókmennta gripið til ýmissa ráða frá því í mars á þessu ári.

Sérstök úthlutun vegna átaksverkefnis stjórnvalda 

Fyrst ber að nefna að í maí á þessu ári var sérstök úthlutun Miðstöðvar íslenskra bókmennta, vegna átaksverkefnis stjórnvalda í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Alls bárust 257 umsóknir um styrki frá um 200 umsækjendum og var 36 milljónum króna veitt til 45 verkefna af margvíslegum toga. Meðal styrktra verkefna voru ýmiskonar ritstörf, útgáfa, þýðingar, hlaðvörp, bókmenntaviðburðir, vefir, hljóðbókagerð, ritsmiðjur, námskeiðahald og fleira.

Ferðastyrkir nú einnig vegna rafrænna viðburða

Þá er að nefna breytta tilhögun á ferðastyrkjum höfunda þegar ferðalög liggja að mestu niðri og mörgum bókamessum aflýst, en höfundar og skipuleggjendur viðburða erlendis geta nú sótt um og fengið styrki til þátttöku í rafrænum viðburðum, en allnokkrir slíkir viðburðir hafa farið fram á liðnum mánuðum og fleiri í farvatninu. Þessi tilhögun verður endurskoðuð og metin reglulega með tilliti til ástandsins og breytinga á því.

Norrænir þýðingastyrkir hærri í ár

Í samstarfi við norrænar systurstofnanir Miðstöðvarinnar var í vor efnt til sérstaks átaks í þýðingum á erlend mál og styrkhlutfall þeirra hækkað tímabundið. Það  hefur skilað sér í mikilli fjölgun umsókna um þýðingastyrki sem gefur tilefni til bjartsýni um útgáfu íslenskra og norrænna bóka erlendis á næstu misserum. 

Meira fé veitt í Auði, barnabókasjóð

Nú er í annað sinn veitt úr sjóðnum sem er ætlað að styrkja útgáfu vandaðra barna- og ungmennabóka sem skrifaðar eru á íslensku. Alls hlutu 32 verk styrki að þessu sinni og nam heildarstyrkupphæð 10 milljónum króna sem er töluverð hækkun frá í fyrra þegar 7 milljónum króna var úthlutað til 20 verkefna.

Myndbönd og höfundasíða 

Unnið er að gerð myndbanda um íslenska höfunda og bókmenntir á nokkrum tungumálum. Einnig er í bígerð er sérstakur höfundavefur sem kynntur verður betur innan skamms og fleira sem nýtist vel í kynningu á íslenskum höfundum og verkum erlendis.

Þýðendavefur

Jafnframt má nefna þýðendavef Miðstöðvar íslenskra bókmennta með gagnlegum upplýsingum um þýðendur úr íslensku á erlendar tungur, en hann hefur reynst erlendum útgefendum vel í leit þeirra að þýðendum bóka sem þeir vilja gefa út á sínu tungumáli.

Gott samstarf 

Miðstöð íslenskra bókmennta er í góðu samstarfi við Íslandsstofu og sendiráð Íslands um leiðir til að vekja athygli á íslenskum höfundum og verkum þeirra víða um heim og þegar eru nokkrir spennandi viðburðir á döfinni hjá nokkrum sendiráðum, sem kynntir verða betur innan tíðar. 


Allar fréttir

Aldrei hafa fleiri þýðingar á íslenskum bókum komið út í Rússlandi á einu ári - 20. nóvember, 2020 Fréttir

Á þessu ári hafa bækur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, Ævar Þór Benediktsson, Yrsu Sigurðardóttur, Arnar Má Arngrímsson, Steinar Braga og Andra Snæ Magnason komið út í Rússlandi.

Nánar

Lestur landsmanna eykst og fólk á öllum aldri les meira núna en fyrir Covid-19 - 16. nóvember, 2020 Fréttir

Íslendingar lesa meira í ár af hefðbundnum bókum en í fyrra og hlusta meira á hljóðbækur. Konur lesa meira en karlar, en lestur eykst mest milli ára hjá körlum.

Nánar

Mikill meirihluti vill lesa nýjar erlendar bókmenntir í íslenskum þýðingum - 16. nóvember, 2020 Fréttir

Tæp 80% landsmanna telja mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku, jafnframt lesa fleiri nú einungis eða oftar á íslensku en öðru tungumáli, borið saman við könnun í fyrra.

Nánar

Allar fréttir