Íslenskir höfundar ferðast um heiminn, kynna verk sín og hitta lesendur

7. nóvember, 2019

Höfundarnir bera hróður bókmenntanna víða, því árlega kemur fjöldi þeirra fram á fjölbreytilegum bókmenntaviðburðum í öllum heimsálfum og kynnir verk sín, iðulega með stuðningi Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

Íslenskir höfundar ferðast víða til að kynna bækur sínar, en það er mikilvægur þáttur í að koma höfundum og verkum þeirra á framfæri erlendis og stuðla að aukinni útbreiðslu íslenskra bókmennta, sem er eitt af hlutverkum Miðstöðvar íslenskra bókmennta og þar er unnið markvisst að kynningu höfunda og verka þeirra víða um heim, m.a. með því að veita höfundum ferðastyrki. Margar spennandi bókmenntahátíðir og aðrir viðburðir eru haldnir árið um kring vítt og breitt um heiminn, þar sem margir íslenskir höfundar kom fram og ræða verk sín við lesendur. Hér neðar má sjá nokkur dæmi af fjölmörgum.  

Festival les Boréales 14. - 24. nóvember

Festival les Boréales; un festival en nord er nú haldin í 28. sinn í Normandí, Frakklandi dagana 14.-24. nóvember. Eins og endranær er áhersla lögð á norrænar bókmenntir og Noregur verður í brennidepli á hátíðinni í ár. Og þrír höfundar frá Íslandi taka þátt að þessu sinni; þau Auður Ava Ólafsdóttir, Dagur Hjartarson og Gyrðir Elíasson. Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur kemur einnig fram á tónlistardagskrá hátíðarinnar. 

Handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 

Auður Ava Ólafsdóttir hefur örugglega ferðast mest íslenskra höfunda á árinu eftir að hún hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í fyrra fyrir bókina Ör. Af viðburðum má nefna stóran bókmenntadagskrá í Litteraturhuset í Osló þar sem hún hélt m.a. opnunarávarpið og hún tók einnig þátt í fjölmörgum viðburðum á bókamessunni í Gautaborg. Auður Ava kom fram í Portúgal í tilefni útkomu bókarinnar á portúgölsku og í Tékklandi, fór vítt og breitt um Frakkland í júní og kemur fram á Les Boreales í Normandí síðar í þessum mánuði, svo fátt eitt sé nefnt.

Tilnefndir höfundar til Norðurlandaráðsverðlaunanna í ár

Kristín Eiríksdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Ragnheiður Eyjólfsdóttir og Sigrún Eldjárn voru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár og tóku af því tilefni þátt í bókamessunni í Helsinki í október ásamt öðrum tilnefndum höfundum.

Gautaborg í september

Á bókamessunni í Gautaborg í lok september komu fram rithöfundarnir Auður Ava Ólafsdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Ragnar Jónasson og Sigrún Eldjárn og fengu ljómandi góðar viðtökur. Á síðustu níu árum hafa alls 50 höfundar frá Íslandi komið fram á messunni. 

Fimm höfundar tóku þátt í heiðursdagskrá í Gdansk í Póllandi 

Ísland var heiðursgestur bókamessunnar í Gdansk í mars sl. og sýndu Pólverjar íslenskum bókmenntum  og höfundum þeirra sérlega mikinn áhuga. Rithöfundarnir Hallgrímur Helgason, Einar Kárason, Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Elísabet Kristín Jökulsdóttir voru sérstakir heiðursgestir messunnar og tóku öll þátt í pallborði um bækur sínar, íslenskar bókmenntir, þýðingar, menningu, stjórnmál og annað sem brann á spyrlunum og gestum messunnar sem tóku virkan þátt í málstofum.

Steinunn Sigurðardóttir, Heiða, Lilja og Ragnar á bókmenntahátíðinni í Edinborg

Bókmenntahátíðin í Edinborg er haldin árlega en þar koma saman höfundar alls staðar að úr heiminum, yfir 800 viðburðir eru á dagskrá og um 250 þúsund gestir leggja leið sína þangað. Í ágúst síðastliðnum tóku Steinunn Sigurðardóttir, Heiða Ásgeirsdóttir, Lilja Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson þátt í skemmtilegum umræðum um bækur sínar og ýmislegt fleira en þau Lilja og Ragnar eru eftirsótt á glæpasagnahátíðum víða. 

Steinunni Sigurðardóttur og Heiðu hefur verið boðið að koma fram á ýmsum viðburðum t.d. í Noregi, Berlín og víðar um Þýskaland, enda hefur bókin Heiða, fjalldalabóndinm eftir Steinunni verið þýdd á mörg tungumál og vakið mikla athygli. 

Gerður Kristný og Jón Kalman fara víða

Gerður Kristný Guðjónsdóttir hefur farið víða með verk sín á árinu og tók hún meðal annars þátt í glæsilegum viðburði í Wilton's Music Hall í London sem byggður var á ljóðabálknum Drápu sem Gerður las og frumsamin tónlist leikin undir. Hún fór einnig til Finnlands og tók þátt í alþjóðlegu bókmenntahátíðinni í Turku ásamt Jóni Kalman Stefánssyni sem hefur líka verið á faraldsfæti og tekið þátt í bókmenntaviðburðum í Ungverjalandi, Þýskalandi og víðar á árinu.

Sjón í Evrópu og Ameríku

Meðal viðburða sem Sjón tók þátt í á árinu eru tvær ljóðahátíðir í Þýskalandi; í Berlín og Bremen. Í National Sawdust leikhúsinu í Brooklyn, New York, kom hann fram á bókmenntadagskránni "Against The Grain" og jafnframt kynnti hann finnska útgáfu CoDex 1962 á bókmenntahátíðinni í Helsinki.

Og enn fleiri eru á faraldsfæti ...

Meðal annarra höfunda á faraldsfæti á þessu ári eru Andri Snær Magnason sem kom fram víða um Bandaríkin í tilefni útkomu Tímakistunnar á ensku og Hallgrímur Helgason sem tók t.d. þátt í Toronto International Festival of Authors og viðburðum í Noregi. Sigrún Pálsdóttir fór til Bandaríkjanna, Guðrún Eva Mínervudóttir til Indlands, Jón Gnarr til Þýskalands, Halldóra Thoroddsen til Ítalíu og Makedóníu, Þórarinn Eldjárn og Fríða Ísberg til Svíþjóðar og Bergsveinn Birgisson til Ítalíu, Noregs og Haukur Ingvarsson til Belgíu svo nokkur nöfn séu nefnd.

Greinilegt er að íslenskir höfundar eru eftirsóttir gestir á alþjóðlegum bókmenntaviðburðum og íslenskar bókmenntir í mikilli sókn víða um veröld. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um ferðir höfunda sem Miðstöðin hefur styrkt, til að kynna verk þeirra erlendis í þýðingum. 


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir