Rökkurbýsnir í TLS

„Stenst samanburð við Ísland Nóbelsverðlaunahafans Halldórs Laxness.“

5. maí, 2011

Rithöfundurinn Sjón stenst samanburð við sjálft Nóbelsskáldið Halldór Laxness samkvæmt nýlegum ritdómi um Rökkurbýsnir í Times Literary Supplement.

rokkurbysnir.engÞað er langtum meira spunnið í íslenskar samtímabókmenntir en rannsóknarlögreglumenn og glæpavettvangar,“ segir í löngum og ítarlegum ritdómi Times Literary Supplement, bókmenntatímaritsins virta, um enska þýðingu skáldsögunnar Rökkurbýsnir eftir Sjón. Það er miðaldabókmenntafræðingurinn Carolyne Larrington sem gagnrýnir bókina og bætir hún við að Sjón sé á meðal athyglisverðustu samtímaskálda Íslands.

Frásögnin er síbreytileg og töfrandi, brosleg og átakanleg til skiptis,“ segir í dómnum. „Sjón beitir hér súrrealismanum sem einkenndi fyrstu verk hans til að kryfja til mergjar, í siðferðilegum skilningi, það sem eftir stendur þegar þjóðfélag hefur verið lagt í rúst. [...] Rökkurbýsnir ætti að ljúka upp veröld íslenskra bókmennta handan glæpasagna og frásagna af fráhverfum ungmennum Reykjavíkur. Veröld náttúru og hugmynda, sem stenst samanburð við Ísland Nóbelsverðlaunahafans Halldórs Laxness.“

Ritdóminn í heild sinni má nálgast hér, á heimasíðu Times Literary Supplement. Þess má geta að Sjón er ekki eini íslenski rithöfundurinn sem tímaritið hefur farið fögrum orðum um, en fjallað var um Yrsu Sigurðardóttur í lofsamlegum dómi um Ösku í fyrra.

Þýsk þýðing Rökkurbýsna kom út fyrr á þessu ári og hafa þarlendir gagnrýnendur sömuleiðis verið hrifnir af bókinni. „Sögur úreldast ekki,“ sagði Sjón í viðtali við Sögueyjuna og svo virðist vera sem heimsmyndahræringar á Íslandi 17. aldar slái á réttar nótur beggja vegna Atlantshafsins.



Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir