Ljóðasetur Íslands

15. júlí, 2011

Miðstöð íslenskrar ljóðlistar opnuð á Siglufirði við hátíðlega athöfn.

Þann 8. júlí var Ljóðasetur Íslands opnað við hátíðlega athöfn á Siglufirði. Á setrinu er sögu íslenskrar ljóðlistar gerð skil og er þar að finna hátt á annað þúsund íslenskra ljóðabóka. Margt var um manninn við vígsluna og fullt var út úr dyrum.

Vigdís Finnbogadóttir var heiðursgestur athafnarinnar og vígði hún ljóðasetrið formlega. Í ávarpi sínu ræddi hún um gildi ljóðlistarinnar og mikilvægi hennar fyrir tungumál og menningu þjóðarinnar. Ennfremur hrósaði hún Þórarni Hannessyni, forstöðumanni setursins, fyrir framtakið. Þórarinn Eldjárn, rithöfundur, var sérstakur gestur opnunarinnar og ræddi hann um kveðskap Íslendinga og flutti ljóð. Einnig voru lesin upp áður óbirt ljóð eftir Matthías Johannessen sem hann hafði sjálfur fært setrinu að gjöf.

LjóðaseturLjóðasetur

Rakel Björnsdóttir, aðstoðarverkefnisstjóri Sögueyjunnar Íslands, var viðstödd vígsluna og  færði hún ljóðasetrinu að gjöf úrval íslenskra ljóða í þýskri þýðingu, Isländische Lyrik, ásamt tvítyngdu ljóðasafni eftir Þorstein frá Hamri, Jarðarteikn – Erdzeichen, sem kom út fyrir skömmu í Þýskalandi. Auk bókanna færði Sögueyjan setrinu myndbandsverk nemenda við Listaháskóla Íslands sem unnin voru af tilefni útgáfu Isländische Lyrik.

Ljóðasetrið stendur opið alla daga milli 14.00-18.00 það sem eftir lifir af sumri. Á hverjum degi kl. 16.00 fara þar fram lifandi viðburðir, svo sem upplestrar eða hljómleikar.

Ljósmyndir: www.siglo.is


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 2. júlí, 2025 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð frá 3. júlí til 5. ágúst.  Nánar

Karólína Rós Ólafsdóttir og Natan Jónsson hljóta Nýræktarstyrki í ár - 6. júní, 2025 Fréttir

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru veittir í átjánda sinn þann 5. júní. Styrkirnir eru 500.000 kr. og eru veittir til nýrra höfunda fyrir óbirt handrit. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir á heimssýningunni í Japan - 2. júní, 2025 Fréttir

Rán Flygenring höfundur og Shohei Akakura japanski þýðandi hennar taka þátt í bókmenntaviðburðum á heimssýningunni sem nú stendur yfir í Osaka í Japan. 

 

Nánar

Allar fréttir