Ljóðasetur Íslands

15. júlí, 2011

Miðstöð íslenskrar ljóðlistar opnuð á Siglufirði við hátíðlega athöfn.

Þann 8. júlí var Ljóðasetur Íslands opnað við hátíðlega athöfn á Siglufirði. Á setrinu er sögu íslenskrar ljóðlistar gerð skil og er þar að finna hátt á annað þúsund íslenskra ljóðabóka. Margt var um manninn við vígsluna og fullt var út úr dyrum.

Vigdís Finnbogadóttir var heiðursgestur athafnarinnar og vígði hún ljóðasetrið formlega. Í ávarpi sínu ræddi hún um gildi ljóðlistarinnar og mikilvægi hennar fyrir tungumál og menningu þjóðarinnar. Ennfremur hrósaði hún Þórarni Hannessyni, forstöðumanni setursins, fyrir framtakið. Þórarinn Eldjárn, rithöfundur, var sérstakur gestur opnunarinnar og ræddi hann um kveðskap Íslendinga og flutti ljóð. Einnig voru lesin upp áður óbirt ljóð eftir Matthías Johannessen sem hann hafði sjálfur fært setrinu að gjöf.

LjóðaseturLjóðasetur

Rakel Björnsdóttir, aðstoðarverkefnisstjóri Sögueyjunnar Íslands, var viðstödd vígsluna og  færði hún ljóðasetrinu að gjöf úrval íslenskra ljóða í þýskri þýðingu, Isländische Lyrik, ásamt tvítyngdu ljóðasafni eftir Þorstein frá Hamri, Jarðarteikn – Erdzeichen, sem kom út fyrir skömmu í Þýskalandi. Auk bókanna færði Sögueyjan setrinu myndbandsverk nemenda við Listaháskóla Íslands sem unnin voru af tilefni útgáfu Isländische Lyrik.

Ljóðasetrið stendur opið alla daga milli 14.00-18.00 það sem eftir lifir af sumri. Á hverjum degi kl. 16.00 fara þar fram lifandi viðburðir, svo sem upplestrar eða hljómleikar.

Ljósmyndir: www.siglo.is


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir