Raddir frá Íslandi - á bókamessunni í Gautaborg í september
Íslenskar bókmenntir og rithöfundar verða áberandi á bókamessunni í Gautaborg í haust, en 15 höfundar taka þar þátt í tugum dagskrárliða.
Íslenskar bókmenntir og rithöfundar verða áberandi á bókamessunni í Gautaborg dagana 24. - 27. september, þegar 15 höfundar taka þátt í tugum dagskrárliða undir yfirskriftinni Raddir frá Íslandi / Röster från Island.
Miðstöð íslenskra bókmennta hefur undanfarin misseri unnið markvisst að kynningu íslenskra bókmennta á Norðurlöndunum með það að markmiði að fjölga þýðingum íslenskra bókmennta á norræn tungumál. Átakið virðist nú þegar vera farið að bera árangur, því fjöldi umsókna frá norrænum útgefendum um styrki til þýðinga úr íslensku á Norðurlandamál hefur nærri tvöfaldast á liðnum tveimur árum.
Einn liður í Norðurlandaátaki MÍB var að halda fundi með útgefendum og þýðendum í íslensku sendiráðunum á Norðurlöndunum, en á þessu ári voru slíkir fundir haldnir í Osló og Helsinki og í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn í maí í fyrra.
Hápunktur Norðurlandaátaks Miðstöðvar íslenskra bókmennta verður þátttaka 15 íslenskra höfunda og skálda í dagskrá bókamessunnar í Gautaborg í september á þessu ári, en þar verða íslenskar bókmenntir og höfundar í forgrunni í sérstakri dagskrá undir yfirskriftinni Raddir frá Íslandi - Röster från Island.

Bókamessan í Gautaborg er stærsta bókamessa Norðurlanda en hana sækja árlega um 100.000 gestir, þar af tæplega 1400 fjölmiðlamenn. Í bókmenntadagskrá messunnar má finna um 3300 dagskrárliði og rúmlega 800 sýnendur eru á messunni frá um 30 þjóðlöndum. Messan fer fram dagana 24. – 27. september.
Íslenskir höfundar og skáld sem taka þátt í dagskrá bókamessunnar í Gautaborg eru: Andri Snær Magnason, Arnaldur Indriðason, Auður Ava Ólafsdóttir, Árni Þórarinsson, Áslaug Jónsdóttir, Bergrún Íris Sævarsdóttir, Einar Kárason, Einar Már Guðmundsson, Gerður Kristný, Jónína Leósdóttir ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur, Jón Kalman Stefánsson, Kári Tulinius, Sigurbjörg Þrastardóttir, Valgerður Þóroddsdóttir og Þórarinn B. Leifsson. Auk þess verður sýning á ljósmyndum Páls Stefánssonar úr nýrri bók hans.
|
|
![]() Auður Ava Ólafsdóttir |
|
|
---|---|---|---|---|
![]() Sigurbjörg Þrastardóttir |
|
|
|
|
![]() Kári Tulinius |
|
|
|
|
![]() Vinnuteikning af íslenska básnum á bókamessunni í Gautaborg í haust |
---|
Skipulag og framkvæmd Röster från Island er í höndum Miðstöðvar íslenskra bókmennta og verkefnissstjóri fyrir hönd MÍB er Sigurður Svavarsson útgefandi sem situr í stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta.
Bakhjarlar þátttökunnar á bókamessunni í Gautaborg eru mennta- og menningarmálaráðuneytið, Íslandsstofa og Félag íslenskra bókaútgefenda og aðrir samstarfsaðilar eru Norræna húsið, Reykjavík Bókmenntaborg og sænskar bókaútgáfur höfunda í dagskrá. HAF studio í Reykjavík hannar íslenskan sýningarbás á bókamessunni.
Hér má finna frekari upplýsingar um bókamessuna í Gautaborg:
Heimasíða bókamessunnar í Gautaborg
Bókamessan í Gautaborg á Facebook
Myndir frá bókamessunni í Gautaborg