Bókmenntaverðlaun og viðurkenningar liðins árs

Bókmenntaverk og höfundar þeirra hlutu ýmis verðlaun og viðurkenningar á liðnu ári eins og Íslensku bókmenntaverðlaunin, Fjöruverðlaunin, Íslensku þýðingaverðlaunin, Maístjörnuna, Viðurkenningu Hagþenkis og Blóðdropann

5. mars, 2020 Fréttir

Hér eru tilgreind bókmenntaverðlaun og viðurkenningar þar sem valið stendur um allar útgefnar íslenskar bækur liðins árs í viðkomandi bókmenntagrein.

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2019, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þriðjudaginn 28. janúar 2020. Að þessu sinni voru lagðar fram 135 bækur frá 36 útgefendum og 15 bækur í þremur flokkum voru tilnefndar.

Sölvi Björn Sigurðsson hlaut verðlaunin fyrir bók sína Selta: apókrýfa úr ævi landlæknis (Sögur) í flokki fagurbókmennta, Bergrún Íris Sævarsdóttir fyrir bókina Langelstur að eilífu (Bókabeitan) í flokki barna- og ungmennabóka og í flokki fræðirita og bóka almenns efnis hlaut Jón Viðar Jónsson verðlaunin fyrir bókina Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925-1965 (Skrudda).

Sjá nánar frétt um allar tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Ruv-myndFjöruverðlaunin

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent í Höfða 15. janúar 2020.

Verðlaunin hlutu Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur (Benedikt bókaútgáfa) Í flokki fagurbókmennta, Jakobína: Saga skálds og konu eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur (Mál og menning) Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis og Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur (Bókabeitan) Í flokki barna- og unglingabókmennta.

Þetta er í fjórtánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt. Hér má sjá allar tilnefningarnar.

Íslensku þýðingaverðlaunin

Jón St. Kristjánsson hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu sína á Hinum ósýnilegu eftir norska rithöfundinn Roy Jacobsen. Verðlaunin voru veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni á Gljúfrasteini laugardaginn 15. febrúar 2020. Hin ósýnilegu kom út hjá Mál og menningu á síðasta ári.

Þetta er í sextánda sinn sem verðlaunin eru veitt.

Maístjarnan, ljóðaverðlaun

Eva Rún Snorradóttir hlaut Maístjörnuna fyrir ljóðabók sína Fræ sem frjóvga myrkrið (Benedikt bókaútgáfa). Verðlaunin voru afhent í Þjóðarbókhlöðunni þann 20. maí 2019 og var það í þriðja sinn sem þau voru veitt. 

Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn veita verðlaunin og gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2018.

Viðurkenning Hagþenkis

Viðurkenning Hagþenkis var veitt þann 4. mars 2020 í Þjóðarbókhlöðunni en hana hlaut Björk Ingimundardóttir fyrir Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi I–II.  

Hér má sjá allar tilnefningarnar.

BlóðdropinnLilja Sigurðardóttir

Lilja Sigurðardóttir hlaut Blóðdropann, hin íslensku glæpasagnaverðlaun, fyrir glæpasöguna Svik. Verðlaunabókin er framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna.  Blóðdropinn var afhentur í fyrsta sinn árið 2007.

 


Allar fréttir

Auglýst eftir umsóknum um Nýræktarstyrki - umsóknarfrestur til 15. apríl - 12. mars, 2020 Fréttir

Nýræktarstyrkir eru veittir árlega fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira.

Nánar

Enskur kynningarbæklingur Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2020 kominn út - 5. mars, 2020 Fréttir

Árlega gefur Miðstöð íslenskra bókmennta út kynningarbækling á ensku, Books from Iceland, sem notaður er til að kynna erlendis það nýjasta í íslenskum bókmenntum og fleira 

Nánar

„Mig langaði til að opna þennan heim fyrir samlöndum mínum.“ - 12. febrúar, 2020 Fréttir

Silvia Cosimini hefur þýtt yfir 70 íslenskar bækur á ítölsku, allt frá fornsögum til nútímabókmennta, en hún segir í spjalli við Magnús Guðmundsson að allt hafi þetta byrjað því hún var rétt manneskja á réttum tíma.

Nánar

Allar fréttir