Yfirlit yfir bókmenntaverðlaun og viðurkenningar liðins árs

Hér eru tilgreind bókmenntaverðlaun og viðurkenningar, þar sem valið stendur um allar útgefnar íslenskar bækur liðins árs í viðkomandi bókmenntagrein.

10. mars, 2021

Bókmenntaverk og höfundar þeirra hlutu ýmis verðlaun og viðurkenningar á liðnu ári. Þar má nefna Íslensku bókmenntaverðlaunin, Fjöruverðlaunin, Viðurkenningu Hagþenkis, Íslensku þýðingaverðlaunin, Maístjörnuna og Blóðdropann.

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 26. janúar sl. og var sjónvarpað beint frá verðlaunaafhendingunni á RÚV.

Elísabet Kristín Jökulsdóttir hlaut verðlaunin í flokki skáldverka fyrir skáldsöguna Aprílsólarkulda, Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir hlutu verðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir Blokkina á heimsenda og Sumarliði R. Ísleifsson í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár.

Sjá nánar frétt um allar tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Gudjon-Samuelsson-husameistariViðurkenning Hagþenkis

Viðurkenningin var afhent þann 10. mars 2021. Hana hlaut Pétur H. Ármannsson fyrir verk sitt Guðjón Samúelsson húsameistari. Hið íslenska bókmenntafélag gaf út.

Úr umsögn dómnefndar: ,,Vandað og ítarlegt yfirlitsrit um ævi og verk Guðjóns Samúelssonar. Verðugur minnisvarði um manninn sem mótaði byggingarlist og skipulagsmál hins nýsjálfstæða Íslands."

Hér má sjá allar tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis.

Fjöruverðlaunin

Verlaunahafar-2021

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent 8. mars 2021. 

Verðlaunin hlutu Hetjusögur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur (Benedikt bókaútgáfa) Í flokki fagurbókmennta, Konur sem kjósa: Aldarsaga eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur (Sögufélag) Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis og Iðunn og afi pönk eftir Gerði Kristnýju (Forlagið) í flokki barna- og unglingabókmennta.

Hér má sjá allar tilnefningarnar.

Íslensku þýðingaverðlaunin

2021

Guðrún Hannesdóttir hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu sína á skáldsögunni Dyrnar eftir ungversku skáldkonuna Magda Szabó, Dimma gaf bókina. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin á Gljúfrasteini þann 20. febrúar 2021.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Guðrún hafi þýtt bókina á einstaklega blæbrigðaríkt og kjarnyrt mál svo ætla mætti að sagan hefði verið skrifuð á íslensku.  

Maístjarnan, ljóðaverðlaun

Maístjörnuna hlaut Jónas Reynir Gunnarsson fyrir ljóðabók sína Þvottadagur. Verðlaunin voru afhent í Þjóðarbókhlöðunni þann 20. maí 2020.

Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn veita verðlaunin og gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2019.

Blóðdropinn

Bloddropinn-2020

Sólveig Pálsdóttir hlaut Blóðdropann 2020, hin íslensku glæpasagnaverðlaun, fyrir glæpasöguna Fjötrar. 

Verðlaunabókin er framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna. Blóðdropinn var afhentur í fyrsta sinn árið 2007.


Allar fréttir

Norrænu bókmenntamiðstöðvarnar með sameiginlegan stand í Frankfurt - 8. október, 2025 Fréttir

Eftir mörg ár í umsjón Félags íslenskra bókaútgefenda verða breytingar á fyrirkomulagi á básnum í Frankfurt þegar Miðstöð íslenskra bókmennta slæst í hóp systurstofnana sinna á Norðurlöndum og verður þar með sameiginlegan norrænan bás, Halle 4.1, B17

Nánar

Afar vel sótt bókamessa í Gautaborg - 1. október, 2025 Fréttir

Íslenskar bókmenntir vöktu athygli á Bókamessunni í Gautaborg, þar sem fulltrúar Miðstöðvarinnar hittu norræna útgefendur og höfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Eiríkur Örn Norðdahl hlutu góðar viðtökur frá sænskum lesendum.

Nánar

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Allar fréttir