Nýtt met í fjölda umsókna og veittra styrkja til þýðinga íslenskra bókmennta á erlend mál

108 umsóknir um þýðingastyrki bárust Miðstöð íslenskra bókmennta í byrjun árs og 86 styrkir voru veittir til þýðinga á 28 tungumál.

11. mars, 2021 Fréttir

Ekkert lát er á útbreiðslu íslenskra bókmennta erlendis þrátt fyrir heimsfaraldurinn. Samnorrænt átak vegna þýðinga og nýjar leiðir við kynningu bóka og höfunda erlendis hafa skilað góðum árangri.

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að ekkert lát er á eftirspurn og vinsældum íslenskra bókmennta erlendis þrátt fyrir heimsfaraldurinn, eins og sjá má á metfjölda umsókna um þýðingastyrki til Miðstöðvar íslenskra bókmennta. 

108 umsóknir bárust frá erlendum útgefendum í þessari fyrri úthlutun ársins til þýðinga úr íslensku á erlend mál og er þetta langmesti fjöldi umsókna um þýðingastyrki sem borist hefur við eina úthlutun. Þar af voru 20 umsóknir til þýðinga á norræn mál. 

Til samanburðar voru umsóknir um þýðingastyrki alls 70 í fyrri úthlutun ársins 2020 og er þetta því 54% fjölgun umsókna milli ára. 

86 þýðingar úr íslensku fá styrki 

Miðstöðin veitir nú styrki til 86 þýðinga úr íslensku á 28 tungumál og þar af eru 18 styrkir vegna norrænna þýðinga. Á sama tíma í fyrra voru veittir 62 þýðingastyrkir.

Styrkirnir nú eru meðal annars veittir til þýðinga úr íslensku á ensku, hollensku, sænsku, ítölsku, rússnesku, ungversku, færeysku og japönsku. Hér má sjá lista yfir þýðingastyrkina eftir löndum.

Aukinn áhugi á íslenskum bókum, norrænt átak og nýjar kynningarleiðir

Þessa aukningu umsókna um þýðingastyrki má rekja til sífellt meiri áhuga á íslenskum bókmenntum erlendis á síðustu misserum en einnig að hluta til norræns átaks sem blásið var til í kjölfar heimsfaraldursins. Þetta er sérstaklega áhugavert og ánægjulegt í ljósi ástandsins í heiminum þar sem hefðbundnar leiðir til bókakynninga hafa legið niðri, s.s. bókmenntahátíðir, bókamessur, ferðalög höfunda, upplestrar og fleira. 

Gripið til ýmissa ráða 

Til að bregðast við óvenjulegu ástandi hefur Miðstöð íslenskra bókmennta gripið til ýmissa ráða við kynningu íslenskra bóka og höfunda þeirra erlendis. Þar má meðal annars nefna myndbönd með íslenskum höfundum sem gerð voru í góðu samstarfi við Utanríkisráðuneytið, sendiráðin, Íslandsstofu og fleiri á ensku og frönsku, sérstaka höfundasíðu á vef Miðstöðvarinnar og norrænt þýðingaátak í samstarfi við bókmenntamiðstöðvar Norðurlandanna.

Myndin með fréttinni er af nokkrum bókakápum þýðinga sem hlotið hafa styrki.


Allar fréttir

Enskur kynningarbæklingur Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2021 kominn út! - 14. apríl, 2021 Fréttir

Árlega gefur Miðstöð íslenskra bókmennta út kynningarbækling á ensku, Books from Iceland, sem notaður er til að kynna erlendum útgefendum valdar bækur liðins árs í mörgum flokkum ásamt fleiru.

Nánar

Auglýst eftir umsóknum um Nýræktarstyrki - umsóknarfrestur til 15. apríl - 18. mars, 2021 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir árlega Nýræktarstyrki fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira. Nýræktarstyrkir hafa verið veittir frá árinu 2008; tveir til fimm styrkir í hvert sinn og valið er úr innsendum umsóknum.

Nánar

Allar fréttir