Nýtt met í fjölda umsókna og veittra styrkja til þýðinga íslenskra bókmennta á erlend mál

108 umsóknir um þýðingastyrki bárust Miðstöð íslenskra bókmennta í byrjun árs og 86 styrkir voru veittir til þýðinga á 28 tungumál.

11. mars, 2021

Ekkert lát er á útbreiðslu íslenskra bókmennta erlendis þrátt fyrir heimsfaraldurinn. Samnorrænt átak vegna þýðinga og nýjar leiðir við kynningu bóka og höfunda erlendis hafa skilað góðum árangri.

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að ekkert lát er á eftirspurn og vinsældum íslenskra bókmennta erlendis þrátt fyrir heimsfaraldurinn, eins og sjá má á metfjölda umsókna um þýðingastyrki til Miðstöðvar íslenskra bókmennta. 

108 umsóknir bárust frá erlendum útgefendum í þessari fyrri úthlutun ársins til þýðinga úr íslensku á erlend mál og er þetta langmesti fjöldi umsókna um þýðingastyrki sem borist hefur við eina úthlutun. Þar af voru 20 umsóknir til þýðinga á norræn mál. 

Til samanburðar voru umsóknir um þýðingastyrki alls 70 í fyrri úthlutun ársins 2020 og er þetta því 54% fjölgun umsókna milli ára. 

86 þýðingar úr íslensku fá styrki 

Miðstöðin veitir nú styrki til 86 þýðinga úr íslensku á 28 tungumál og þar af eru 18 styrkir vegna norrænna þýðinga. Á sama tíma í fyrra voru veittir 62 þýðingastyrkir.

Styrkirnir nú eru meðal annars veittir til þýðinga úr íslensku á ensku, hollensku, sænsku, ítölsku, rússnesku, ungversku, færeysku og japönsku. Hér má sjá lista yfir þýðingastyrkina eftir löndum.

Aukinn áhugi á íslenskum bókum, norrænt átak og nýjar kynningarleiðir

Þessa aukningu umsókna um þýðingastyrki má rekja til sífellt meiri áhuga á íslenskum bókmenntum erlendis á síðustu misserum en einnig að hluta til norræns átaks sem blásið var til í kjölfar heimsfaraldursins. Þetta er sérstaklega áhugavert og ánægjulegt í ljósi ástandsins í heiminum þar sem hefðbundnar leiðir til bókakynninga hafa legið niðri, s.s. bókmenntahátíðir, bókamessur, ferðalög höfunda, upplestrar og fleira. 

Gripið til ýmissa ráða 

Til að bregðast við óvenjulegu ástandi hefur Miðstöð íslenskra bókmennta gripið til ýmissa ráða við kynningu íslenskra bóka og höfunda þeirra erlendis. Þar má meðal annars nefna myndbönd með íslenskum höfundum sem gerð voru í góðu samstarfi við Utanríkisráðuneytið, sendiráðin, Íslandsstofu og fleiri á ensku og frönsku, sérstaka höfundasíðu á vef Miðstöðvarinnar og norrænt þýðingaátak í samstarfi við bókmenntamiðstöðvar Norðurlandanna.

Myndin með fréttinni er af nokkrum bókakápum þýðinga sem hlotið hafa styrki.


Allar fréttir

46 styrkir veittir til þýðinga íslenskra verka - mikill áhugi í Danmörku og Frakklandi - 29. október, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir tvisvar á ári styrki til þýðinga íslenskra bóka á erlend mál. 50 umsóknir bárust í þessari síðari úthlutun ársins og veittir voru 33 styrkir. Þá voru veittir 13 styrkir til norrænna þýðinga.

Nánar

Norrænu bókmenntamiðstöðvarnar með sameiginlegan stand í Frankfurt - 8. október, 2025 Fréttir

Eftir mörg ár í umsjón Félags íslenskra bókaútgefenda verða breytingar á fyrirkomulagi á básnum í Frankfurt þegar Miðstöð íslenskra bókmennta slæst í hóp systurstofnana sinna á Norðurlöndum og verður þar með sameiginlegan norrænan bás, Halle 4.1, B17

Nánar

Afar vel sótt bókamessa í Gautaborg - 1. október, 2025 Fréttir

Íslenskar bókmenntir vöktu athygli á Bókamessunni í Gautaborg, þar sem fulltrúar Miðstöðvarinnar hittu norræna útgefendur og höfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Eiríkur Örn Norðdahl hlutu góðar viðtökur frá sænskum lesendum.

Nánar

Allar fréttir