Annáll nýliðins árs; viðburðaríkt og gjöfult starfsár hjá Miðstöðinni

8. janúar, 2020 Fréttir

Ótal skemmtilegir viðburðir og farsælt samstarf við fjölda aðila á bókmenntasviðinu, innanlands og utan, setja svip sinn á árið 2019. 

Árið 2019 var einkar viðburðaríkt hjá Miðstöð íslenskra bókmennta og fjölmargir skemmtilegir viðburðir standa upp úr. Gott og gjöfult samstarf við innlenda og erlenda aðila á sviði bókmenntanna svo sem höfunda, þýðendur og stofnanir, er eftirminnilegt. Hér má líta nokkur helstu verkefni og viðburði liðins árs.

Þýðingadagar í Osló

Bergsveinn Birgisson, Tone Myklebost og fleiri ræða saman í Litteraturhuset í Osló.

Íslenskar bókmenntir, höfundar og þýðendur vöktu athygli í Osló í byrjun mars á umfangsmikilli dagskrá Oversatte dager í Litteraturhuset þar í borg. Þátttakendur voru m.a. höfundarnir Auður Ava Ólafsdóttir og Bergsveinn Birgisson, þýðandinn Tone Myklebost og Hrefna Haraldsdóttir frá Miðstöð íslenskra bókmennta. Sendiráð Íslands í Noregi skipulagði íslensku dagskrána, sem var mjög vel sótt. 

Ísland heiðursgestur á bókamessunni í Gdansk 

Sigríður Hagalín ræðir við lesendur í Gdansk, Jacek Godek þýðir.Hallgrímur Helgason í pallborði á bókamessunni í Gdansk.Elísabet Jökulsdóttir, Jacek Godek og pólska leikkonan Małgorzaty Brajner,.Einar Kárason ræðir um verk sín og Jacek Godek þýðir fyrir pólska gesti bókamessunnar.

Ísland var heiðursgestur á þriggja daga bókamessu sem haldin var í hafnarborginni Gdansk í Póllandi í lok mars. Heiðursþátttakan hlaut mikla athygli bókafólks sem og pólskra fjölmiðla og íslensku rithöfundarnir Hallgrímur Helgason, Einar Kárason, Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Elísabet Kristín Jökulsdóttir fengu einstaklega hlýjar viðtökur. Þau tóku öll þátt í pallborði um bækur sínar, íslenskar bókmenntir, þýðingar, menningu, stjórnmál og annað sem brann á spyrlunum og gestum messunnar sem tóku virkan þátt í málstofum. 

Miðstöð íslenskra bókmennta hafði veg og vanda af þátttöku Íslands í Gdansk í samvinnu við stjórnendur messunnar, sem voru gestgjafar íslenska hópsins, þar á meðal mikilvirkasti þýðandi íslenskra bókmennta á pólsku, Jacek Godek sem sjá má á myndunum til hliðar.

Silvia Cosimini og John Swedenmark hlutu Orðstírinn 2019

Forseti Íslands afhenti heiðursverðlaunin Orðstír við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 26. apríl og var það í þriðja sinn sem þau voru veitt. Að þessu sinni hlutu hann þýðendurnir Silvia Cosimini frá Ítalíu og John Swedenmark frá Svíþjóð. 

Orðstír afhentur á Bessatöðum

Orðstír, heiðursverðlaun fyrir þýðingar íslenskra bókmennta á erlendar tungur, eru afhent annað hvert ár í tengslum við Bókmenntahátíð. Viðurkenningin er veitt einstaklingum sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi.

18 þýðendur á alþjóðlegu þýðendaþingi í Reykjavík

Þýðendur og skipuleggjendur þýðendaþingsins.

Alþjóðlegt þýðendaþing var haldið dagana 29. og 30. apríl í Veröld, húsi Vigdísar og tóku átján þýðendur frá tíu málsvæðum þátt í þinginu. Þar voru jafnt reyndir þýðendur sem nýir og tungumálin sem þeir þýða á eru pólska, tékkneska, norska, sænska, danska, enska, rússneska, lettneska, þýska og ítalska. 

Orðstírshafinn John Swedenmark ræðir við þýðendur á þinginu.Markmið Miðstöðvar íslenskra bókmennta með að halda þýðendaþing hér á landi er að efla og treysta tengslin við starfandi þýðendur á erlend tungumál og sýna í verki hve mikils metin þeirra vinna er, en þýðendur eru öflugir sendiherrar bókmenntanna og auka hróður þeirra um allan heim. Aðstandendur þingsins vilja jafnframt hvetja nýja og upprennandi þýðendur til dáða og auðvelda öllum þátttakendum að komast í snertingu við íslenskan bókaheim og menningu á líðandi stund.

Auður, barna- og ungmennabókasjóður. Úthlutað í fyrsta sinn!

Frá fyrstu úthlutun úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði.

Í maí var í fyrsta sinn úthlutað úr Barna- og ungmennabókasjóðnum Auði en stofnun sjóðsins er liður í aðgerðaáætlun mennta- og menningarmálaráðherra um eflingu íslenskunnar og er ætlað að styrkja útgáfu vandaðs efnis fyrir yngri lesendur. Alls hlutu 20 verk styrki að þessu sinni og nemur heildarstyrkupphæð 7 milljónum kr.  
Sjóðurinn er hýstur hjá Miðstöð íslenskra bókmennta sem hefur umsjón með honum. Útgefendur sóttu um styrki til útgáfu 60 bóka en þær 20 sem hlutu styrki að þessu sinni voru af ýmsu tagi, langar textabækur fyrir ungmenni, myndríkar smábarnabækur og allt þar á milli. Styrkirnir námu frá 250-500 þúsund kr. hver.

Tveir nýir höfundar hljóta Nýræktarstyrki

Hrefna Haraldsdóttir, Kristján H. Guðmundsson, Auður Stefánsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir við afhendingu Nýræktarstyrkjanna.

Fimmtudaginn 6. júní, veitti Miðstöð íslenskra bókmennta tveimur nýjum höfundum Nýræktarstyrki fyrir verk þeirra. Styrkina hlutu að þessu sinni Auður Stefánsdóttir fyrir barnabókina Í gegnum þokuna og Kristján H. Guðmundsson fyrir smásagnasafnið Afkvæni og afhenti Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, þá við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins.

Nýræktarstyrkir eru veittir árlega vegna skáldverka höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, og til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. 

Íslenskir útgefendur efla tengslin við sænska kollega í Stokkhólmi

Útgefendurnir Guðrún Vilmundardóttir, Páll Valsson og Valgerður Benediktsdóttir.

Í júní efndi Miðstöð íslenskra bókmennta til samstarfs við sænsku bókmenntamiðstöðina, Swedish Literature Exchange, um útgefendaskipti milli landanna. Þrír íslenskir útgefendur fóru utan í þrjá daga og þrír sænskir útgefendur/umboðsmenn komu hingað til lands í jafnlangan tíma, en sambærileg skipti hafa verið reynd milli annarra norrænna landa og hafa gefið góða raun. Markmiðið með útgefendaskiptunum er að efla tengsl milli fagaðila/útgefenda, kynna íslenskar bókmenntir í Svíþjóð, fjölga þýðingum og auka útbreiðslu þeirra þar. Íslensku útgefendurnir voru sammála um að ferðin til Stokkhólms hefði verið afar vel heppnuð í alla staði.

Þátttaka Miðstöðvarinnar í bókamessum erlendis

Norræni básinn á bókamessunni í London.Victoria Cribb, Quentin Bates og Yrsa Sigurðardóttir ræða saman í sendiráðinu.

Líkt og undanfarin ár tók Miðstöðin þátt í helstu bókamessum erlendis til að kynna íslenskar bókmenntir fyrir erlendum útgefendum, umboðsmönnum, þýðendum og öðrum áhugasömum. Að venju var bókamessan í London haldin á vormánuðum og þar var Miðstöðin á sameiginlegum norrænum bás með systurstofnunum  frá Norðurlöndunum. Í tengslum við messuna hélt sendiráð Íslands í London viðburð þar sem Yrsa Sigurðardóttir, Victoria Cribb, þýðandi bóka hennar, og Quentin Bates áttu skemmtilegt spjall um bókmenntir og mikilvægi þýðinga auk þess sem forsetafrúin, Eliza Reid, hélt áhugavert erindi um íslenskar bókmenntir. 

Ein stærsta bókamessa heims fór fram í Frankfurt í október en þangað flykkjast útgefendur og annað bókmenntafólk frá öllum heimshornum. Þar var Miðstöðin á íslenska básnum, sem er í umsjá Félags íslenskra bókaútgefenda, og fundaði með útgefendum, umboðsmönnum og fleirum og kynnti íslenskar bókmenntir, sem og styrkjamöguleika fyrir gestum og gangandi. 

Auður Ava, Kristín, Ragnar og Sigrún á Gautaborgarmessunni

Kristín Ómarsdóttir les ljóð sín í Rum för poesi.Auður Ava áritar bækur á íslenska básnum í Gautaborg.Sigrún Eldjárn í Barnsalongen á Gautaborgarmessunni.

Bókamessan í Gautaborg var haldin í lok september og líkt og undanfarin ár tóku íslenskir höfundar þátt í viðamikilli dagskrá hennar. Auður Ava Ólafsdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Ragnar Jónasson og Sigrún Eldjárn komu fram á ýmsum sviðum messunnar og hlutu ljómandi góðar viðtökur. Þau ræddu meðal annars hefðina og nútímann, ímyndunarafl og ljóðrænu, glæpasögur og ofurhetjur, auk þess að taka þátt í ýmsum viðburðum annars staðar í borginni samhliða messunni.

Ragnar Jónasson ræðir um bækur sínar í Crimetime á Gautaborgarmessunni.Miðstöð íslenskra bókmennta heldur utan um dagskrá íslensku höfundanna í samráði við stjórnendur messunnar. Íslenski básinn á bókamessunni er í samstarfi við Íslandsstofu en þar eru bækur íslenskra höfunda kynntar og seldar, margar hverjar í sænskum þýðingum og það er Félag íslenskra bókaútgefenda sem hefur umsjón með þeim þætti. Frá árinu 2012 hafa 46 íslenskir höfundar komið fram og tekið þátt í dagskrá bókamessunnar í Gautaborg, sumir oftar en einu sinni.

Ný og aðgengileg þýðendasíða tekin í notkun

Í haust útbjó Miðstöð íslenskra bókmennta og tók í notkun nýja þýðendasíðu með lista yfir virka þýðendur á erlend mál. Á síðunni má finna greinargóðar og aðgengilegar upplýsingar um þýðendurna, menntun og bakgrunn - sem og helstu verk sem þau hafa þýtt úr íslensku. Notendur síðunnar geta flett upp þýðendum eftir nafni eða tungumáli hér. Nýir þýðendur bætast við reglulega. 

Lestrarkönnun meðal þjóðarinnar

Miðstöð íslenskra bókmennta, í samstarfi við helstu aðila á bókmenntasviðinu, lét í lok árs gera könnun á viðhorfi Íslendinga til bóklestrar og fleira. 

Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli?

Niðurstöðurnar sýna að lestur hefur heldur aukist, sérstaklega notkun hljóðbóka, og landsmenn lesa nú að meðaltali 2,3 bækur á mánuði. Afkastamestu lesendurnir eru konur og barnafjölskyldur. Unga fólkið les mikið á öðrum tungumálum en íslensku og flestir fá hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum. Yfirgnæfandi meirihluti telur opinberan stuðning við bókmenntir mikilvægan og greinilegt er að samtal um bækur lifir góðu lífi og hefur mikil áhrif á hvað fólk les.

Lestrarskýrslustyrkir til úthlutunar í fyrsta sinn 

Nokkrar þýðingar íslenskra bóka á erlend mál.

Hlutverk Miðstöðvar íslenskra bókmennta er að efla bókmenningu á Íslandi, kynna íslenskar bókmenntir erlendis og stuðla að aukinni útbreiðslu þeirra. Það er meðal annars gert með styrkveitingum ýmiskonar til útgáfu og þýðinga. Miðstöðin sækir fram á þessum sviðum með því að bæta tveimur nýjum flokkum í styrkjaflóruna á þessu ári sem eru, eins og fyrr segir barna- og ungmennabókasjóðurinn Auður, og lestrarskýrslustyrkir.

Lestrarskýrslustyrkir eru að norrænni fyrirmynd og eru ætlaðir erlendum útgefendum og umboðsmönnum sem íhuga að gefa út íslenskt verk í erlendri þýðingu og vilja fá faglegt álit á verkinu. Lestrarskýrslustyrkjunum er ætlað að hvetja til og stuðla að fleiri þýðingum og útgáfu þeirra og styðja þannig við útbreiðslu íslenskra bókmennta erlendis. 

Margvísleg starfsemi Miðstöðvarinnar

Starfsmenn Miðstöðvarinnar, Gréta M. Bergsdóttir og Hrefna Haraldsdóttir, á góðri stundu.

Ofangreind upptalning sýnir einungis hluta af starfsemi Miðstöðvar íslenskra bókmennta en mikilvægur þáttur í starfinu eru margvíslegar styrkveitingar s.s. úthlutun styrkja til útgáfu innanlands og þýðinga á íslensku og á erlend mál. Að auki greiðir Miðstöðin götu höfunda með styrkjum til kynningarferða erlendis og býður upp á dvalar- og ferðastyrki fyrir þýðendur úr íslensku í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands. Hér má finna frekari upplýsingar um alla styrki Miðstöðvarinnar.

Við þökkum þeim fjölmörgu sem við áttum ánægjulegt samstarf við á árinu 2019, innanlands og utan, og hlökkum til samstarfs og nýrra ævintýra á þessu ári!

 


Allar fréttir

Tilkynnt um aukaúthlutun Miðstöðvar íslenskra bókmennta. 36 milljónum króna veitt til 45 verkefna af margvíslegum toga - 29. maí, 2020 Fréttir

Meðal styrktra verkefna eru ritstörf, útgáfa, þýðingar, hlaðvörp, bókmenntaviðburðir, vefir, hljóðbókagerð, ritsmiðjur, námskeiðahald og fleira.

Nánar

Fjölbreyttar bækur um náttúru, byggingalist, bókmenntir, sagnfræði, tungumál og fleira fá útgáfustyrki - 14. maí, 2020 Fréttir

Mikil gróska einkenndi umsóknir um útgáfustyrkina í ár sem endurspeglast í úthlutuninni. Von er á fjölbreyttum og spennandi fræðibókum og bókum almenns efnis á næstu misserum.

Nánar

Mikill fjöldi umsókna barst um styrki vegna átaksverkefnis stjórnvalda - 12. maí, 2020 Fréttir

Alls bárust 257 umsóknir frá um 200 umsækjendum. Úthlutað verður fyrir 1. júní.

Nánar

Allar fréttir